Reynir Þór Ragnarsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri
Nú um mánaðarmótin lét Reynir Þór Ragnarsson af störfum sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Reynir mun þó áfram verða nýjum stjórnendum til halds og traust og miðla af reynslu sinni og þekkingu komandi verkefnum.
Reynir Þór hefur sinnt framkvæmdastjórastarfinu frá stofnun Bergraf allt frá 2008 þegar ævintýrið hófst.
Bergraf sá þá um rafverktöku í fyrirhuguðu álveri í Helguvík. Þó að það verkefni hafi ekki komist á skrið héldu ævintýrin áfram fyrir Bergraf.
Með samstilltum starfsmannahópi og yfirgripsmikilli þekkingu á starfssvæðinu stækkaði Bergraf með undraverðum hraða. Meðal verkefna fyrirtækisins eru stór og viðamikil framkvæmdasýsla á flugvallarsvæðinu, bæði fyrir Isavia og Landhelgisgælsuna.
Ennfremur hefur Bergraf komið að stórum og miklum verkefnum fyrir Olíudreifingu í Helguvík. Fyrirtækið sinnir uppsetningu og viðhaldi götuljósa allt frá Suðurnesjum austur í Vík í Mýrdal.
Verkefnaflóran er fjölbreytt bæði á sviði rafmagns og stálsmíði. Ennfremur sinnti það blikksmíði ásamt pólýhúðun um árabil en hefur dregið sig út úr þeirri starfsemi til að einbeita sér að krefjandi verkefnum í rafmagni og stáli.
Allt þetta hefur unnist í stjórnartíð Reynis. Nú hefur Reynir ákveðið að minnka við sig vinnu og halda á vit áhugamála og fjölskyldu. Í lokahófi sem haldið var Reyni til heiðurs miðvikudaginn 30. september síðastliðinn færðu samstarfsmenn honum kærkomna gjöf í veiði í Litluá í Kelduhverfi og gistingu í Keldunesi. Bergraf þakkar Reyni innilega fyrir frábæra forystu starfstímanum og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.