Viðskipti

Nýr maður í brúnni hjá Bergraf

16/12/2022

Nýr maður í brúnni hjá Bergraf

Við kynnum Guðmund Jóhannsson til leiks. Guðmundur mun taka við framkvæmdastjórastarfinu af Reyni Þór Ragnarssyni sem gegnt hefur starfinu frá stofnun fyrirtækisins. Nú hefur Reynir ákveðið að hverfa að öðrum verkefnum enda kominn tími til að huga að áhugamálum eftir annasöm ár hjá Bergraf og yfirgripsmikil störf í verktakabransanum í áratugi.

Guðmundur Jóhannsson er rafvirkjameistari að mennt og hefur viðamikla reynslu af rekstri og stjórnun.

Guðmundur er Akureyringur og hefur látið til sín taka í sinni sveit, hann tók virkan þátt í seitarstjórnarmálum um langan tíma.  Ungur hóf hann nám í rafvirkjun hjá Slippstöðinni á Akureyri og varð fljótt einn að sjórnendum rafmagnsverkstæðis stöðvarinnar,  hann starfaði í Slippnum til 1982.

“Ég vatt síðan kvæði mínu í kross og fór suður, nánar tiltekið til Njarðvíkur”, segir Guðmundur.

Árið 1982 hóf ég störf hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur og sá þar um daglegan rekstur rafmagnssviðs fyrirtækisins ásamt því að gera tilboð og hafa umsjón með verkum. “Þar vann ég við fyrsta og eina nýsmíðaverkefni Skipasmiðastöðvar Njarðvíkur sem var bygging togarans Gunnjóns GK 506 sem brann ári eftir afhendingu. Við fengum einnig það verkefni að endurbyggja Gunnjón eftir brunann" segir Guðmundur.

“Ég fór síðan aftur norður og stofnaði Straumrás á Akureyri en fyrirtækið er þjónustufyrirtæki á sviði iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs”.

Ennfremur hefur Guðmundur setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja í verktaka- og byggingargeiranum, hann var eigandi ásamt þremur bræðrum sínum að Sandblæstri og Málmhúðun sem í dag heitir Ferro Zink. Guðmundur var stjórnarformaður SM Ferro Zink til 2006 er hann seldi hlut sinn í fyrirtækinu.

Starfsferill Guðmundar er fjölbreyttur en hann starfaði sem þjónustustjóri Símans á Norðurlandi og var yfirmaður viðskiptastýringar Símans á Akureyri. Guðmundur hefur því góða þekkingu og reynslu á fjarskiptamarkaði.

Eftir hrun var aftur breytt um kúrs og stefnan tekin á Noreg.  Þar starfaði Guðmundur sem rafvirki við byggingu olíuvinnslupallsins Gjoa hjá Fitjar Electro.

Árið 2011 ákváðu hjónin að flytja til Orlando og þar var stofnað fyrirtækið Workaround Muscle sem í upphafi var í fasteignaumsjón. Síðustu árin hefur starfsemin aðallega verið viðhald og þjónusta við Íslenska húseigendur í Orlando. "Við komum hins vegar alltaf til Íslands á sumrin og vann ég þá við akstur hópferðabíla og svo sem sumarstarfsmaður hjá Bergraf”, segir Guðmundur.